Sterkari sjálfsmynd í skapandi umhverfi

  • (0)
  • 18
    Aug
  • Author : Hrafndís Tekla Category : Fréttir

    Tags :

Á sjálfstyrkingarnámskeiðum Foreldrahúss fá börn og unglingar tækifæri til að skoða samskipti, tilfinningar og tengsl sín við sitt nánasta umhverfi og tjá sig með myndlist, tónlist, orðlist, hreyfingu og leikrænni tjáningu. Viðtal við við Elísabetu Lorange kennara og listmeðferðarfræðing hjá Foreldrahúsi um námskeiðin er að finna í sérblaði Morgunblaðsins um skóla og námskeið sem kom út 15. ágúst sl.

Elísabet Lorange

Elísabet Lorange

“Sjálfstyrkingarnámskeiðin veita börnum og unglingum tækifæri til að efla tilfinningagreind og sjálfsmeðvitund á skapandi hátt,” segir Elísabet Lorange, kennari og listmeðferðarfræðingur hjá Foreldrahúsi. Ný námskeið fyrir börn og ungmenni á aldrinum 10 til 17 ára hefjast í Foreldrahúsi í september en markmiðið er að styrkja sjálfsmynd þeirra og bæta líðanina, með nálgun út frá þeirra eigin forsendum.

„Það er almennt mikilvægt að leggja stund á sjálfsrækt, bæði líkamlega og andlega, sama í hvaða formi hún er og sjálfstyrkingarnámskeið Foreldrahúss eru þörf viðbót við annað sem er í boði fyrir þennan aldurshóp. Það er nauðsynlegt að hafa fjölbreytt val, þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Við höfum fengið einstaklinga til okkar sem hafa ekki þrifist í neinni annarri sjálfsrækt og þeir hafa komið aftur og aftur á námskeið.“

Vaxandi þörf

Elísabet heldur utan um sjálfstyrkingarnámskeiðin, sem skólabörnum hafa staðið til boða síðastliðin 14 ár, og samstarf Foreldrahúss við stofnanir og samtök.

„Námskeiðin byggjast á hugmyndafræði þar sem þátttakendur eru hvattir til aukinnar meðvitundar um innra og ytra líf með sjálfsskoðun og tilfinningalegri úrvinnslu. Uppbygging námskeiðanna á sér ekki fyrirmynd en unnið er út frá aðferðarfræði húmanískrar meðferðar og einnig er notast við hugmyndir sem byggjast á gjörhygli, jákvæðri sálfræði og lausnamiðaðri meðferð. Undanfarin ár höfum við fundið fyrir vaxandi þörf fyrir að nýta sjálfstyrkingarnámskeiðin sem langtímaúrræði. Þannig hafa æ fleiri ungmenni komið aftur og aftur á námskeið og verið hjá okkur í lengri tíma, allt frá einu og upp í þrjú ár. Við höfum brugðist við þessu með því að halda upphaflegum hópum og ráðgjöfum saman, en þannig myndast sterkari tengsl, hægt er að kafa dýpra í viðfangsefnið og árangurinn verður enn betri.“

 mynd01  Myndir sem börn á sjálfsstyrkingarnámskeiðum hafa gert undir leiðsögn Elísabetar.

Myndir sem börn á sjálfsstyrkingarnámskeiðum hafa gert undir leiðsögn Elísabetar.
Aukið áreiti

Elísabet er spurð út í þjóðfélagslegar breytingar hin síðari ár og muninn á því að vera barn og unglingur núna og til dæmis fyrir 20 árum.

„Þá voru vissulega aðrir tímar, það sem börn og unglingar eru að takast á við nú er aukið áreiti og álag. Þau ganga mörg hver í gegnum meiri breytingar en áður fyrr, til dæmis flutninga og skólaskipti, breytta „fjölskyldumynd“ og nýja „vinamynd“. Einnig er svo margt í boði í formi upplýsinga og afþreyingar og aðgengi barna og unglinga að því er mun auðveldara nú en fyrir tiltölulega fáum árum. Oft hafa ungmenni ekki getu eða þroska til þess að velja það sem er æskilegast því auknu vali fylgir aukin ábyrgð. Þessu getur til dæmis fylgt spenna, óöryggi, valkvíði og vanmat.“

Aðspurð segir hún ungmennin ekki öll móttækileg í byrjun námskeiðs, en það breytist yfirleitt fljótt.

„Þau koma missátt í fyrsta tíma en þar er þeim gert ljóst að námskeiðið sé fyrir þau og þau hafi val um að halda áfram eða ekki. Við hvetjum þau til að hugsa málið eftir fyrsta tímann, gefa sér viku fram að næsta tíma og taka þá ákvörðun. Í yfir 90% tilfella koma Morgunblaðið/Þórður þau aftur. Sum taka vini með sér og það eru bestu meðmæli sem við getum fengið. Fyrir ýmsa þátttakendur er sérstaklega erfitt að mæta á slíkt námskeið þar sem þeir eru oft að takast á við kvíða og/eða félagsfælni. Það er stórt skref fyrir einstaklinga að koma í viku hverri og sýnir það bæði kjark og þor að sinna þeirri ástundun.“

Öruggt umhverfi

Hún bendir á að nálgunin á námskeiðunum felist í því að veita öruggt umhverfi, byggja upp traust innan hópsins og búa þannig um hnúta að allir fái að njóta sín.

„Við leggjum höfuðáherslu á að trúnaður ríki bæði meðal þátttakenda og leiðbeinenda, þannig að það sem er rætt og unnið með fer ekki út fyrir hópinn. Traust er byggt upp með því að nálgast hvern og einn þátttakanda út frá hans eða hennar forsendum og fær hver og einn að vinna þau verkefni sem lögð eru fyrir á sinn hátt. Á námskeiðunum fá þátttakendur tækifæri til að skoða og vinna með samskipti, tilfinningar og tengsl sín við sitt nánasta umhverfi; fjölskyldu, vini og skóla. Boðið er upp á margar leiðir til þess að opna sig og tjá sig út frá ofangreindum viðfangsefnum, svo sem með myndlist, tónlist, leikrænni tjáningu, hreyfingu og orðlist. Þetta eru allt árangursríkar leiðir til að efla sjálfstæði, sköpun, tengsl, sjálfsþekkingu og samvinnu.“

Mikilvægt starf

„Við höfum verið í ýmiss konar samstarfi í gegnum árin, þar af lengst við Hafnarfjarðarbæ, Ljósið, VáVest og Námsflokka Reykjavíkur. Í Hafnarfirði höfum við unnið með námsráðgjöfum í öllum grunnskólunum og leiðbeint nemendahópum. Við höfum töluvert sinnt landsbyggðinni og þá ýmist verið með helgarnámskeið eða komið inn í skólana. VáVest sér um forvarnir á norðanverðum Vestfjörðum og við höfum haldið örnámskeið í skólunum þar að minnsta kosti tvisvar á ári. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein og þar höfum við verið með námskeið fyrir aðstandendur. Hjá Námsflokkum Reykjavíkur höfum við einnig boðið upp á sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unglinga sem nefnist Starfskraftur og hefur verið afar vel sótt.“

Jákvæð ummæli

Hún segir sjálfstyrkingarnámskeið Foreldrahúss í stöðugri endurskoðun og þróun, enda sé alltaf markmiðið að þau gagnist börnum og unglingum sem allra best.

„Sú breyting verður til dæmis á haustnámskeiðunum að tímarnir lengjast um 30 mínútur og verða nú tvær klukkustundir í senn.  Ástæðan er sú að oft eru unglingahóparnir komnir í miklar og djúpar umræður undir lok hvers tíma og hefur þá verið þörf á að  halda áfram.“

Frá upphafi hafa nokkur þúsund börn og unglingar sótt sjálfstyrkingarnámskeið Foreldrahúss og eykst aðsóknin ár hvert, að sögn Elísabetar.

„Árangurinn af námskeiðunum er góður en við metum hann út frá mörgum þáttum; mætingu, aukinni endurkomu, aukinni tjáningu og meiri tengslum við ráðgjafa og þátttakendur, betri líðan og virkni í tímum, sem og jákvæðum ummælum foreldra og Þátttakenda. Við teljum okkur vinna mjög mikilvægt starf og álítum það nauðsynlegan þátt í þágu mannræktar í íslensku samfélagi.“

Greinin birtist í fylgiblaði Morgunblaðsins: “SKÓLAR OG NÁMSKEIД 15. ágúst 2014