Ráðgjöf í Foreldrahúsi

Í Foreldrahúsi eru starfandi sálfræðingur og vímuefna- og áfengisráðgjafi.

Sálfræðiráðgjöf

Boðið er upp á sálfræðiráðgjöf fyrir unglinga í vanda og fjölskyldur þeirra. Meðal þess vanda sem unnið er með er kvíði, depurð, samskiptavandi, hegðunarvandi og áhættuhegðun.

 

Vímuefnaráðgjöf

Foreldrar eru mikilvægir í forvörnum og reynast vera þeir sem mest áhrif hafa á velferð barna sinna, einkum þegar eitthvað bjátar á. Til að styðja foreldra og styrkja í uppeldishlutverkinu hefur Vímulaus æska í mörg ár miðlað upplýsingum og ráðum til foreldra á tímamótum eins og yfir sumartímann og um verslunarmannahelgar. Þótt ekki séu til nein töfraráð til að fyrirbyggja vímuefnaneyslu, geta ráð sem þessi styrkt sjálfstraust foreldra og ábyrgð þeirra í forvörnum.


Fjölskylduráðgjöf Foreldrahúss

Fjölskylduráðgjöfin í Foreldrahúsi er ætluð foreldrum og börnum í vanda. Í henni starfa sálfræðingur, vímuefnaráðgjafar og annað fagfólk. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða ráðgjöf. Boðið er uppá sálfræðiþjónustu, ráðgjöf og meðferð barna og unglinga með hegðunar- og /eða áfengis- og fíkniefnavanda. Meðferð og ráðgjöf vegna almennrar vanlíðunar, depurðar, kvíða, félagslegrar einangrunar, eineltis, samskiptaerfiðleika í fjölskyldunni o.fl.  Hver einstaklingur og hver fjölskylda fyrir sig hefur mismunandi vandamál og bregst við vandanum á mismunandi hátt. Vandamálin eru því oft ólík þrátt fyrir að flestir séu að takast á við einhvers konar vanlíðan sem birtist í ótal myndum.  Oft er álagið orðið það mikið að foreldrar missa tökin og þurfa stuðning til að sinna öðrum börnum á heimilinu, sem og til að sinna sjálfum sér. 
Leitast er við að mæta þeim vanda sem fjölskyldan glímir við og efla hana til bættra lífsgæða.
Viðtalið kostar 3.900 kr.  (50 mín.) fyrir einstaklinga búsetta í Reykjavík.

Athugið að v/ þjónustusamnings við Reykjavíkurborg eru viðtölin niðurgreidd fyrir íbúa Rvk.  Almennt verð er 6.900 kr fyrir viðtalið í fjölskylduráðgjöfinni. Flest stéttafélög greiða niður þjónustu í fjölskylduráðgjöfinni.

 

Senda fyrirspurn til samtakanna